Hlutverk innansameinda-óreiðu í Neuronal Calcium Sensor-1
2020
Einar Halldórsson 1997- | Háskóli Íslands
Eftir því sem lífverur hafa orðið flóknari hafa þær einnig þurft að þróa með sér margbrotnari samskiptakerfi milli sameinda. Nýlegar uppgötvanir á próteinum sem hafa þann eiginleika að geta flöktað á milli mismunandi byggingarástanda eru ein leið til að koma til móts við þetta vandamál sem flóknari lífverur standa frammi fyrir og það hefur gjörbreytt því hvernig við hugsum um virkni próteina. Þessi prótein, sem skortir eða innihalda svæði án stöðugrar þrívíðrar byggingar, hafa fengið viðurnefnið óreiðuprótein eða prótein sem innihalda óreiðusvæði. Dæmi um slíkt prótein er taugapróteinið neuronal calcium sensor-1 (NCS-1), en óreiðukenndur hali þess er talinn spila mikilvægt hlutverk í stjórn á því hvaða marksameindum próteinið bindst. Mikill læknisfræðilegur áhugi er á NCS-1 þar sem það hefur sterklega verið tengt við taugahrörnunarsjúkdóma, einhverfu og ýmsa andlega kvilla. Að skoða óreiðu er hins vegar erfitt verkefni þar sem hefðbundnar aðferðir greina oftast meðaltal margra sameinda (jafnvel hundruða milljóna) og því tapast mikið af upplýsingum í slíkum mælingum. Ein nýstárleg aðferð til að rannsaka óreiðukennd svæði er einsameindatækni í samverkun við „Förster resonance energy transfer“ (FRET), sem gefur möguleika á upplýsingum um dreifni byggingarástanda, hraðafræði, og skammlíf ástönd – eina sameind í einu. Markmið verkefnisins var að beita einsameindatækni til að kanna nánar hlutverk og hreyfanleika óreiðuhala NCS-1. Cystein afbrigði af NCS-1 ætlað til merkingar með flúrljómandi hópum var útbúið með góðum árangri og það verður svo notað til greininga á hreyfingu halans með einsameindatækni. Niðurstöðurnar marka mikilvæg fyrstu skref í áttina að tilraunum á NCS-1 með einsameindatækni sem munu mögulega koma til með að varpa ljósi á hlutverk prótein-óreiðuhala ásamt því að dýpka skilning okkar á prótein-óreiðu almennt.
Show more [+] Less [-]Bibliographic information
This bibliographic record has been provided by University of Iceland